Guðrún Helgadóttir

Gott gengi Guðrúnar

Guðrún Helgadóttir, einn vinsælasti barnabókahöfundur þjóðarinnar, hefur slegið í gegn í Þýskalandi undanfarin misseri. Bók hennar Bara gaman, sem gefin var út af Forlaginu 2008, kom út í Þýskalandi síðastliðið sumar og hefur vakið stormandi lukku. Bara gaman er fjörug fjölskyldusaga þar sem lesendum býðst að dvelja sumarlangt með fjölskyldunni á Bakkabæ og það er bara gaman!

Bókinni hefur raunar gengið svo vel að hún hefur selst upp, verið endurprentuð og hlotið viðurkenningu sem ein af bestu barnabókum ársins í Þýskalandi árið 2013.

Árið 2014 markar 40 ára rithöfundaafmæli Guðrúnar og það má því með sanni segja að hún hefji árið af krafti.

Hér að neðan má lesa brot úr dómum í þýskum fjölmiðlum um Bara gaman:

„Fjölskyldusaga sem hlýjar lesendum um hjartaræturnar … einstaklega næmt auga fyrir spaugilegu hliðunum á lífinu.“
Süddeutsche Zeitung

„Guðrún Helgadóttir er þekktasti barnabókahöfundur Íslands … ef hinar bækurnar hennar eru jafnfrábærar og þessi væri óskandi að forlagið drifi í að láta þýða þær líka.“
NDR / HF

„Guðrún Helgadóttir skrifar af svo mikilli hlýju og næmni að manni dettur helst í hug að hún sé sjálf enn barn … Bara gaman er frábærlega vel heppnuð að öllu leyti: spennandi, fyndin og hjartnæm.“
Augsburger Allgemeine

„Mikilvægum lífsgildum og gullkornum er miðlað frá sjónarhóli barnanna þriggja, til dæmis að það sé vel hægt að lifa góðu lífi þótt efnin séu lítil og að það sé mikilvægt að allir hugsi vel um umhverfi sitt. Þetta er bók sem ætti að vera í til á hverju barnabókasafni.“
bibliotheksnachrichten

„Töfrandi saga um fjölskyldulíf þar sem fólk lifir, elskar, spjallar, hlær og grætur saman. Með einföldum frásagnarstíl og mikilvægum boðskap fangar Guðrún Helgadóttir allt sem er best og fallegast í lífinu og færir það lesendum.“
www. buchrezicenter.de

„Ritstíllinn er einstaklega lipur og bókin sérlega læsileg, jafnvel fyrir börn frá sjö eða átta ára aldri … Í frásögninni er söguþræðinum leyft að njóta sín … Börnunum er einstaklega vel lýst og hvert þeirra hefur sín sérstöku persónueinkenni … Hér er miðlað veigamiklum gildum, svo sem að það sé vel hægt að lifa skemmtilegu hversdagslífi þótt lítið sé um peningana og að samheldni fjölskyldunnar skipti mestu. … Ætli sé von á framhaldi?“
www.buechertreff.de

„Guðrún Helgadóttir, þekktasti barnabókahöfundur Íslands, glæðir alla frásögnina lífsspeki og húmor. Þessi bók hentar fullkomlega til upplestrar.“
NZZ am Sonntag

„Guðrún Helgadóttir er verðugur arftaki Astrid Lindgren, enda skemmtir hún ungum lesendum með æsispennandi og fjörlegri atburðarás sem bæði kallar fram hlátur og vekur upp sterkar tilfinningar. Þessi bók heillar stóra sem smáa með frumlegri sögu og leiftrandi kímni.“
Literaturmarkt

INNskráning

Nýskráning