„Sannkölluð lestrarupplifun“


Það er skammt stórra högga milli hjá Ófeigi Sigurðssyni. Skáldsaga hans um Jón Steingrímsson fær í dag fantagóða umsögn í Fréttablaðinu eftir Friðriku Benónýsdóttur en í gær var það Einar Falur sem birti sinn ritdóm og ekki síðri í Morgunblaðinu. Sagan „byggir á raunverulegum atburðum,” segir Friðrika, „og inn í hana fléttast það sem hæst bar á Íslandi þennan vetur. … Stíllinn er meistaralegur og hrífur lesandann með sér inn í þennan þrönga heim sem þó spannar allan geiminn og skírskotar meira en lítið til samtímans. Hér verða náttúruhamfarir sem rústa samfélögum hinn 11. september, Skúli landfógeti ber að sumu leyti svipmót útrásarvíkinga, Eggert og Bjarni voru kannski forverar Íslenskrar erfðagreiningar og Kötlugosið fyrirmynd gossins í Eyjafjallajökli. Svona má endalaust tengja saman þátíð sögunnar og nútíðina en þungamiðja sögunnar eru þó persónurnar sem spretta ljóslifandi upp af síðunum, einkum Jón sjálfur og það fer ekki hjá því að hann veki bæði væntumþykju og virðingu svo breyskur og mannlegur sem hann er, en þó um leið óbugandi. Það markverðasta við þessa skáldsögu er þó textinn sjálfur; að hálfu forn, að hálfu nýr, fljótandi eins og hraun og undir kraumar eldur. Ótrúlega hnyttinn, stundum bráðfyndinn, á köflum ljóðrænn og alltaf tær, alltaf ferskur, sannkölluð lestrarupplifun.”

Niðurstaða Friðriku er þessi: „Listilega saminn texti í fantavel byggðri sögu sem speglar veruleikann bæði þá og nú. Tvímælalaust ein besta skáldsaga ársins.”

INNskráning

Nýskráning