Meðmæli skáldanna

Viðskiptablaðið leikur skemmtilegan leik í dag með því að biðja nokkra nafnkunna rithöfunda að velja tvær bækur sem þeir mæla sérstaklega með. Má nærri geta að höfundarnir munu gleðjast sérstaklega yfir meðmælum frá svo kröfuhörðum lesendum. Svo dæmi séu tekin mælir Vigdís Grímsdóttir sérstaklega með Ljósu eftir Kristínu Steinsdóttur og það gerir Gerður Kristný líka: „Ég naut þess að lesa hana,“ segir Gerður. Hin bókin sem Gerður velur er ljóðabókin Síðdegi eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og mætti halda að þær skáldsystur væru í skjallbandalagi því Vilborg velur fyrir sitt leyti Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju. Hin bókin sem Vilborg mælir með er ljóðabókin Brúður eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. Sölva Birni Sigurðssyni líst vel á Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur og Skáldsögu um Jón eftir Ófeig Sigurðsson sem Bragi Ólafsson mælir líka með: „Maður tekst allur á loft við að lesa hana.“ Þórunn Valdimarsdóttir mælir hins vegar með Missi eftir Guðberg Bergsson sem gerði heim hennar þolanlegan fyrir löngu með Tómasi Jónssyni metsölubók og er enn glimrandi að hennar mati …

INNskráning

Nýskráning