Friðrika Benónýsdóttir - mynd visir.is

„Óvenjuleg og skemmtileg saga“

Það má lesa í Fréttablaðinu í dag að Friðrika Benónýsdóttir er hugfangin af Svifflugi eftir hollenska rithöfundinn Anne-Gine Goemans sem kom út hjá Forlaginu fyrir stuttu. Hún gefur bókinni fjórar stjörnur og segir meðal annars:

Svifflug er óvenjuleg og skemmtileg saga, allt í senn þroskasaga, samfélagsgagnrýni, fróðleikur um flug og flugslys, sagnfræðileg skáldsaga, ástarsaga og harmsaga. Persónugalleríið er með eindæmum fjölbreytt og vel upp dregið og þótt sögurnar séu sumar á mörkum hins fáránlega er í þeim öllum djúpur mannlegur tónn sem lesandinn tengir við og fer að þykja vænt um persónurnar. Inn í söguna er síðan fléttað sögu frá fyrri öldum af ungu fólki sem flúði til Hollands frá Danmörku til að fá að njótast og lenti í alls kyns hrakningum og hörmungum.“ Hún rekur söguþráðinn stuttlega og segir svo: „Sagan flýtur vel áfram og þrátt fyrir persónufjöldann og útúrdúra í ýmsar áttir tekst höfundinum að halda dampi og lesandinn missir ekki áhugann eitt augnablik. Ekki einu sinni upprifjanir á fjölmörgum flugslysum og björgunaraðgerðum draga úr tærleika frásagnarinnar. Þetta fellur allt saman í einn farveg sem ber lesandann með sér, vaggar honum, skekur hann og sýnir honum hlutina frá nýjum sjónarhornum. Það er erfitt að festa hendur á því nákvæmlega í hverju töfrar sögunnar eru fólgnir en þar fer allt saman sem gerir góða sögu: áhugaverð framvinda, vel skapaðar persónur, drama, húmor og söguleg yfirsýn. Það verður enginn svikinn af því að fá sér flugferð með Gieles og samferðafólki hans.“

Loks fær þýðandinn heilan rósavönd í hnappagatið: „Ragna Sigurðardóttir hefur unnið þrekvirki með þýðingunni. Vandað og eðlilegt málfar, góður stíll og seiðandi hrynjandi sem sjaldgæft er að sjá í frumskrifuðum texta, hvað þá þýddum. Virkilega vel að verki staðið.“

INNskráning

Nýskráning