Ríkisfang: Ekkert - höfundur og aðalpersónur

Ríkisfang: Ekkert heldur áfram að heilla lesendur

Ríkisfang: Ekkert, bók Sigríðar Víðis Jónsdóttur, hefur verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið í tilefni af því að um þessar mundir eru tíu ár frá því að Bandaríkjamenn, Bretar og bandalagsþjóðir þeirra réðust inn í Írak, en þaðan komu flóttakonurnar sem Sigríður segir frá í bókinni. Ljóst er að bókin heldur áfram að heilla lesendur tæpum tveimur árum eftir útkomu sína. Herdís Sigurgrímsdóttir, fyrrum friðargæsluliði í Írak, sagði í Víðsjá á dögunum: „Það sem hefur haft einna mest áhrif á mig var að lesa bókina hennar Sigríðar Víðis Jónsdóttur þar sem hún segir sögur flóttakvenna, palestínskra að uppruna sem bjuggu í Bagdad, og fengu hæli á Íslandi, því þær sögur eru að gerast á miklu leyti á sama tíma og ég var í Bagdad.“

Þá sagði Guðfinnur Sigurvinsson, fjölmiðlamaður, í síðdegisútvarpi Rásar 2: „Ég vil eindregið mæla með (bókinni) við hlustendur. Ég las hana nýverið og hún dýpkaði ekki bara skilning minn á stríðinu í Írak heldur stríðum almennt og er virkilega holl lesning.“

Bókin hlaut sem kunnugt er fjölda verðlauna og viðurkenninga þegar hún kom út haustið 2011, meðal annars Viðurkenningu Hagþenkis og tilnefningu til bæði Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Í henni er að finna gríðarlegan fróðleik um aðstæðurnar í Bagdad þegar árásin hófst og  lýsingu á flótta kvennanna frá borginni sem er á köflum nánast reyfarakennd. Að auki skýrir bókin aðstæður Palestínumanna í Mið-Austurlöndum sem dvelja í fjölda landa án ríkisfangs og eru því í hörmulegum aðstæðum þegar ófriður brýst út.

Bókin naut mikilla vinsælda þegar hún kom út, jafnt meðal þeirra sem hafa mikla þekkingu á aðstæðum þessa heimshluta og hinna sem lítið hafa kynnt sér þær. Hún lifir líka góðu framhaldslífi því höfundurinn fer enn á milli ýmissa félagasamtaka til að kynna efni hennar og hún hefur bæði verið tekin fyrir í framhaldsskólum og er í dag hluti af námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Fleiri ummæli um Ríkisfang: Ekkert má finna á síðu bókarinnar hér á Forlagsvefnum.

INNskráning

Nýskráning