stjarna

Stjörnubarnabækur

Gagnrýnendur keppast við að lofa barnabækur Forlagsins þessa dagana. Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason fær fjórar og hálfa stjörnu hjá Önnu Lilju Þórisdóttur í dag sem segir eftir að hafa krufið söguna að fyrst og fremst sé hún afskaplega skemmtileg lesning: „Andra Snæ tekst hér, rétt eins og í t.d. Sögunni af bláa hnettinum, að segja bráðskemmtilega sögu, ævintýri sem inniheldur sterk og áleitin skilaboð, án þess að predikunartóns gæti nokkru sinni. Stíllinn áreynslulaus að vanda, gamalkunnug minni úr ævintýrunum eru sett í nýtt samhengi og svo er atburðarásin á köflum æsispennandi. Hér sannast enn og aftur að Andri Snær er einn af okkar allra snjöllustu sögumönnum.“

Á sömu opnu í Mogganum birstist fjögurra störnu dómur Árna Matthíassonar um Draumsverð eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Ragnarsson þar sem segir meðal annars: „Fyrri bókin í sagnabálknum Þriggja heima sögu, Hrafnsauga, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2012 og stóð vel undir því. Þessi, sem segir líka frá ferðaraunum Ragnars, Breka og Sirju, er enn betri, mun betur skrifuð og framvindan ævintýralegri.“

Fyrir helgina fjallaði Jón Agnar Ólason um Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason í Morgunblaðinu og var heillaður: „Fótboltabækurnar þrjár eftir Gunnar Helgason eru glæsilegt „hatt-trikk“ svo mállýska úr sportinu sé notuð, og það er til marks um hversu vel lukkast hér sem fyrr að 11 ára fótboltapeyi og pabbi hans voru jafnspenntir að klára þessa bók. Hún er framúrskarandi fín.“ Dómnum fylgdu svo fjórar og hálf stjarna.

Troðfullan stjörnuhimin, fimm stjörnur af fimm mögulegum, fékk svo Vísindabók Villa í Fréttatímanum. Sigríður Dögg Auðunsdóttir hafði prófað bókina á markhópnum og niðurstaðan var ótvíræð: „Yngstu börnin mín tvö … hafa unun af því að hlusta á fróðleikskafla um hitt og þetta úr heimi vísindanna. Þeim finnst spennandi að heyra um rafmagn, um himingeiminn, þyngdarkraftinn, blóðið, beinin, hljóðin og öll hin mögnuðu viðfangsefni sem Villi tekur fyrir í bókinni og skýrir á undurskemmtilegan hátt á máli sem allir skilja.“

INNskráning

Nýskráning