Heitar sumarbækur

Bragð af Ást

Í hálft annað ár hefur Saffron Mackleroy tekist á við sorgina og söknuðinn eftir að Joel eiginmaður hennar var myrtur. Enginn veit hver varð honum að bana eða hvers vegna, nema ekkja hans. Og nú er morðinginn farinn að skrifa henni bréf. Til að bæta gráu ofan á svart er fjórtán ára dóttir hennar komin í ógöngur.

Á milli þess sem Saffron reynir að höndla veruleikann og vernda fjölskyldu sína leitar hún athvarfs í matargerð sem var líf og yndi Joels. Hún ákveður að ljúka við matreiðslubókina sem hann var að semja og reynir um leið að finna aftur bragðið af ástinni sem þau áttu saman – en ógnin færist sífellt nær.

Bragð af ást er hörkuspennandi og tilfinningaþrungin saga um söknuð og ást, leyndarmál og ógnandi óvissu.

Piparkökuhúsið

Börn geta verið ótrúlega grimm. Og sár sem þau veita hvert öðru geta setið eftir á sálinni áratugum saman án þess að gróa. Svo gerist eitthvað sem rífur ofan af þeim og afleiðingarnar verða hörmulegar.

Gömul kona sem býr ein snýr heim í hús sitt eftir langa sjúkrahúsvist. Á eldhúsgólfinu liggur lík af manni sem hún þekkir ekki en reynist vera vammlaus fjölskyldufaðir úr hverfinu. Hver hefur orðið honum að bana og hvers vegna? Lögregluforinginn Conny Sjöberg og undirmenn hans á Hammarbystöðinni standa á gati – og svo fjölgar morðunum og tengsl koma í ljós. En hver ber þyngsta sektarbyrði – sá sem fremur verknað, sá sem hvetur til hans, sá sem rís upp til hefnda eða sá sem horfir aðgerðalaus á?

Carin Gerhardsen þekkir einelti af eigin raun. Hún er stærðfræðingur og starfaði við ráðgjöf á sviði veflausna þar til hún sló í gegn með Piparkökuhúsinu. Hún hefur síðan sent frá sér fleiri vinsælar bækur um lögreglusveitina á Hammarbystöðinni.

Nanna B. Þórsdóttir þýddi.

Uppreisn

Hér fléttast saman margar sögur sem eiga sér þó sameiginlegan, sáran undirtón. Sofie er hálfdönsk og hálfgrænlensk en hún hafnar eftir ævintýralegum krókaleiðum í Afríku. Við hittum fyrir indverskættaðar stúlkur í járngreipum hefða, kynnumst skelfilegum aðstæðum í námum þar sem mannslífið er einskis metið og rótlausum ungmennum í heimi spillingar og misnotkunar þar sem allt snýst um að lifa af. Frásögnin er nöpur og miskunnarlaus og sker inn að beini.

Uppreisn er önnur bókin í þríleik Jakobs Ejersbo um mannlíf í Afríku og eftirköst nýlendutímans og persónur úr fyrstu bókinni, Útlaga, koma við sögu. Sagnabálkurinn hefur vakið mikla athygli og verið þýddur á fjölmörg tungumál enda þykir hann opna einstæða sýn á álfuna.

Páll Baldvin Baldvinsson þýddi.

Mamma Segir

Ung kona flytur heim á prestssetrið til pabba síns þegar kærastan segir henni upp. Hún reynir hvað hún getur að átta sig á eðli ástarinnar og hlusta á fólkið sitt, vinkonuna og spunameistarann Mulle, lækninn þolinmóða með fráleitu hugmyndirnar, móðurina sem talar í slagorðum og hugsar ekki um annað en sextugsafmælið sem nálgast og föðurinn sem vitnar í Pink Floyd og trúir því að allt leysist af sjálfu sér. Hún leyfir sér að syrgja á sinn hátt, kaldhæðin, hávær, þver, æst og ör, uns ljós kviknar aftur við enda ganganna.

Mamma segir er fyndin og sjarmerandi saga um ást, ástarsorg og meiri ást sem var stjörnum prýdd í fjölmiðlum í Danmörku þegar hún kom út árið 2012 og prentuð hvað eftir annað.

Stine Pilgaard skrifaði MA-ritgerð við Hafnarháskóla um konur og frásagnarhætti í Íslendingasögunum.

Steinunn Stefánsdóttir þýddi.

Sögusafn bóksalans

Fólk er ekki skáldsögur.

Fólk er samt meira en smásögur.

Fólk er eiginlega sögusöfn.

Líf bóksalans A.J. Fikry er í molum. Konan hans er nýlátin, búðin í bullandi taprekstri og búið að stela frá honum verðmætasta verkinu. Í sjálfskipaðri einangrun sinni á hann síst von á dularfullri sendingu sem skilin er eftir í búðinni hans: lítilli stelpu.

Sögusafn bóksalans er áleitin skáldsaga um einmanaleika og ást þar sem höfundur fléttar heimsbókmenntirnar saman við daglegt líf söguhetjunnar; hugnæm saga sem sýnir möguleika skáldskaparins til að opna nýja sýn á veröldina og okkur sjálf.

Þetta er áttunda skáldsaga Gabrielle Zevin (f. 1977) og hún hefur þegar hlotið frábærar viðtökur. Útgáfuréttur bókarinnar hefur verið seldur til tæplega tuttugu landa.

Karl Emil Gunnarsson þýddi.

Eða deyja ella

Í Chicago er lögreglukonu rænt um hábjartan dag. Af tilviljun er Jack Reacher á röngum stað á röngum tíma; við hlið hennar. Þau eru handjárnuð saman, fleygt aftur í sendiferðabíl og þannig hefst langt ferðalag þvert yfir Bandaríkin, þrungið spennu, hörku og óvissu þar sem fórnarlömbin hafa ekki hugmynd um af hverju þeim var rænt. Hollý Johnson er hörð af sér, hæfni hennar og styrkur vekja aðdáun Reachers. En kröfur mannræningjanna benda til hversu mikils virði hún er í raun. Í blóðugu kapphlaupi við tímann tekst Reacher á við sína verstu martröð.

Lee Child er spennufíklum um allan heim að góðu kunnur en áður hafa komið út á íslensku sex bækur um harðjaxlinn Jack Reacher.

Jón St. Kristjánsson þýddi.



INNskráning

Nýskráning