Þorsteinn frá Hamri látinn

Rithöfundurinn Þorsteinn frá Hamri er látinn, 79 ára að aldri. Hann lést að heim­ili sínu í Reykja­vík að morgni sunnu­dags­ins 28. janú­ar. Hann fæddist 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði. Þorsteinn er eitt fremstu ljóðskálda okkar. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli, árið 1958, aðeins tvítugur að aldri, mótaði hann og fágaði ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans.

Þorsteinn skrifaði skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja margar þýðingar. Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Þorsteinn hefur margorft verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, seinast árið 2015 fyrir ljóðabókina Skessukatla. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2009.

Verk Þor­steins hafa verið þýdd á fjöl­mörg tungu­mál, meðal ann­ars þýsku, ensku, frönsku, ít­ölsku, dönsku, sænsku og kín­versku.

Á dögunum var þriðja skáldsaga Þorsteins, Hausti í Skírisskógi, endurútgefin í tilefni af sextíu ára höfundarafmæli hans.

Starfsfólk Forlagsins sendir ástvinum Þorsteins sínar innilegustu samúðarkveðjur.

INNskráning

Nýskráning