Til heiðurs Heródótusi og Stefáni

Við kætumst mjög því hinn ötuli þýðandi Rannsókna Heródótusar, Stefán Steinsson, er væntanlegur hingað suður yfir heiðar á morgun, þriðjudag. Stefán er búsettur á Akureyri en mun bregða sér í bæinn og af því tilefni verður haldið útgáfuteiti í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8 kl. 20. Stefán mun þar halda erindi um þýðingastarf sitt og verkið, Silja Aðalsteinsdóttir les valda spretti úr því og Ingólfur Steinsson mun syngja nokkra slagara frá kaldastríðsárunum við gítarslátt.

Rannsóknir Heródótusar er fyrsta varðveitta sagnaritun heimsins, kom fyrst fyrir sjónir manna á árunum 430-424 fyrir Krists burð en höfundurinn er talinn hafa látist um 420 f.Kr. Íslendingar hafa því þurft að bíða í tæp 2.400 ár eftir því að geta lesið þetta mikla verk á sínu máli. Stefán Steinsson nam forngrísku við Háskóla Íslands og hefur unnið að verkinu með læknisstörfum árum saman. Rannsóknir Heródótusar koma út hjá Máli og menningu í ritröð klassískra verka sem hófst með Ummyndunum Óvíds 2009.


INNskráning

Nýskráning