66 handrit úr fórum Árna Magnússonar er gefin út í tilefni þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu hins stórtæka handrita- og bókasafnara, Árna Magnússonar. Staldrað er við 66 handrit úr umfangsmiklu og afar fjölbreyttu safni Árna, eitt fyrir hvert ár sem hann lifði, og þeim lýst í máli og einstaklega fallegum myndum. Hér eru bókmenntir og fræði, guðsorð og lögbækur, dagatöl og söngbækur, svo eitthvað sé nefnt. Sum handritin eru slitur eða laus blöð, meðan önnur eru þverhandarþykkar bækur í góðu ásigkomulagi. Mörg bera þess vitni að þeim var bjargað á elleftu stundu, löskuð og velkt, önnur hafa varðveitt upprunalegan glæsileik þannig að undrun og aðdáun vekur. Það er þeim þó öllum sammerkt að vera ómetanlegar heimildir, sem verðskulda að vera komnar á varðveisluskrá UNESCO, enda eiga þau erindi við heiminn allan.