Dagur Sigurðarson (1937–1994) hefur verið kallaður „enfant terrible“ íslenskra bókmennta, svo ögrandi þóttu bæði persóna hans og ljóð. Hann var eitt nýstárlegasta og framsæknasta skáld á Íslandi á sinni tíð og varð mikið eftirlæti skáldakynslóðanna sem komu á eftir honum.

Auk allra útgefinna ljóðabóka Dags frá Hlutabréfum í sólarlaginu (1958) að Glímuskjálfta (1989) er hér efni sem aðeins birtist í tímaritum, m.a. löng smásaga úr Forspili 1958. Hér er einnig prentaður í fyrsta sinn óperutextinn Reköldin sem Dagur hafði nýlokið við þegar hann lést. Dagur leit ekki síður á sig sem myndlistarmann en skáld og í bókinni eru fjölmargar myndir af málverkum hans og teikningum auk ljósmynda af manninum sjálfum sem var mikið myndefni.

Formála ritar Einar Ólafsson skáld sem þekkti Dag vel.