Ljóð og Ljóð er heildarsafn ljóða Sigurðar Guðmundssonar. Ljóðin birtust upphaflega í skáldsögum höfundar, ljóðabókum sem komu út í Hollandi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, og í ritum um list hans. Alls spanna ljóðin um hálfrar aldar tímabil og eru þau nýjustu nú frumbirt.

Ljóð Sigurðar hafa  sterkt svipmót, líkt og önnur skrif hans og myndlistarverk, og bera höfundi sínum skýrt vitni. Lesandinn er leiddur að hugmyndum og kenndum sem hann man ekki eftir að hafa kynnst fyrr. Ljóðin kveikja á perum og lokka lesandann með sér í andlegt fútt.

Sigurður Guðmundsson er fæddur í Reykjavík árið 1942. Hann er einn fremsti myndlistarmaður Íslendinga og verk hans eru í eigu margra helstu listasafna heims. Sigurður er höfundur skáldsagnanna Tabúlarasa (1993), Ósýnilega konan (2000), Dýrin í Saigon (2010) og Musa (2017).