Í bókinni spyrja fjórtán höfundar gagnrýninna spurninga um menningararf, hvernig hann er notaður, af hverju og til hvers: Torfbæir og timburhús, handrit og hárlokkar, bátar og búningar, súrmatur og skyr, söguskilti og sögufrægir kvenskörungar.

Hvernig stendur á því að sumu gömlu er hampað sem ómetanlegum menningararfi á meðan annað er léttvægt fundið og leyft að drabbast niður? Höfundarnir lýsa menningararfi sem sameiningar- og sundrungarafli, hugtaki sem fólk tekur til handargagns, hreyfiafli er drífur áfram athafnir þess, sjónarhorni á daglegt líf og umhverfi, hugsjón, auðlind og þrætuepli.

Ritstjórar eru Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein, en aðrir höfundar eru þjóðfræðingar, mannfræðingar, safnafræðingar, sagnfræðingar og bókmenntafræðingar: Áki Guðni Karlsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Helgi Þorláksson, Jón Þór Pétursson, Karl Aspelund, Katla Kjartansdóttir, Kristinn Schram, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Tinna Grétarsdóttir.