Til skamms tíma var talið að leynilegt eftirlit hins opinbera með þegnum landsins væri harla lítið hér á landi. Með árunum hefur þó fjölmargt komið fram sem bendir til hins gagnstæða og eftir því sem leynd hefur verið aflétt af ýmsum skjalasöfnum hér heima og erlendis hefur myndin skýrst smám saman.

Ljóst var að ráðamenn hugsuðu sitt eftir að heiftúðug átök brutust út í kjölfar ákvörðunar um aðild Íslands að NATO 1949 og komu Bandaríkjahers árið 1951. Í kjölfarið var vísi að öryggisþjónustu komið á fót og grannt fylgst með ferðum og athöfnum vinstri manna og róttæklinga af ýmsu tagi, herstöðvaandstæðinga, verkalýðsforkólfa og „grunsamlegra“ erlendra gesta.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur komst óvænt í gögn og heimildir um þessa starfsemi sem aðeins var á fárra vitorði og birtir hér niðurstöður rannsókna sinna. Í bókinni er dregið fram í dagsljósið hversu langt var gengið í viðleitni til að vernda „innra öryggi" ríkisins og hulunni er svipt af rás háleynilegra atburða og ljósi varpað á það sem gerðist á bak við tjöldin. Margt af því eru upplýsingar sem hvergi hafa komið fram áður.

Í bókinni er meðal annars greint frá því hjá hverjum var úrskurðað um hlerun, hvers vegna og hvað menn óttuðust, hvernig skráningu upplýsinga um þátttöku í mótmælum og félagasamtökum var háttað, hvað annað var talið ógna öryggi ríkisins og frá njósnum erlendra ríkja á Íslandi.

Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.