Höfundur: Árni Einarsson

Tíminn sefur fjallar um heillandi leyndardóm sem fáir þekkja: Ævafornar og miklar garðhleðslur sem greina má í landslagi sums staðar á landinu, einkum norðaustanlands.

Þessir hlöðnu garðar ná ofan úr efstu byggðum og fram á ystu nes, yfir heiðar þverar og endilangar, og eru mörg hundruð kílómetrar að lengd. Aldur þeirra, hlutverk og umfang hefur lengi verið ráðgáta en eftir áralangar rannsóknir er nú orðið ljóst að garðarnir eru flestir frá þjóðveldisöld og varpa nýju ljósi á það mikilvæga tímabil Íslandssögunnar.

Hér er sagt ítarlega frá þessum sérstæðu mannvirkjum og reynt að skýra tilurð þeirra. Garðhleðslurnar gefa fágæta innsýn í landnám, efnahag og búskaparhætti á fyrstu öldum byggðar – þær tengja okkur við löngu liðið fólk, landið og söguna.

Fjöldi merkilegra og lýsandi ljósmynda er í bókinni, auk korta og skýringarmynda.

Árni Einarsson er líffræðingur og fornvistfræðingur, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Hann hefur stundað rannsóknir á fornum garðhleðslum undanfarna tvo áratugi.