Einn síðsumardag í Hagfors fær blaðakonan Magdalena Hansson boð um að hitta gamla bekkjarfélaga úr grunnskóla. Ætlunin er að dvelja í kennarabústaðnum eins og þau gerðu um helgi í 9. bekk. Magdalena nennir ekki að fara en ein úr bekknum er orðin fræg tónlistarkona og hún fellst á að nota tækifærið til að skrifa grein um hana fyrir blaðið sitt.
Við endurfundina virðast allir falla í gamalt mynstur og fljótlega kemur upp á yfirborðið óuppgerð misklíð. Um kvöldið finnst einn bekkjarfélaginn dáinn. Hann hafði verið myrtur. Daginn eftir finnst lík annars bekkjarfélaga. Hann hafði líka verið myrtur.
Hvað bjó að baki? Var sami gerandi í báðum tilvikum? Voru fleiri bekkjarfélagar í hættu?
Lögreglumennirnir Petra Wilander og Christer Berglund taka höndum saman við rannsókn málsins.
Ninni Schulman starfaði við blaðamennsku áður en hún sló í gegn sem glæpasagnahöfundur í heimalandi sínu, Svíþjóð. Velkomin heim er fjórða bókin sem kemur út eftir hana á íslenska og þriðja bókin í Hagfors-seríunni. Hinar eru Stúlkan með snjóinn í hárinu og Leyndarmálið okkar. Ásamt Bara þú hafa þær allar fengið frábærar viðtökur íslenskra lesenda.