Hallgrimur Helgason

„Ein besta lestrarupplifun síðustu ára“

Hallgrímur Helgason skrifar langa og dúndurskemmtilega grein um skáldsöguna Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur í DV í dag og bendir þar á margt til fróðleiks og umhugsunar, meðal annars athyglisverðan skyldleika hennar við tvo jöfra íslenskra bókmennta: „Endursköpun Auðar sjálfri sér minnir helst á sjálfsmynd Þórbergs í Ofvitanum og íslenskum aðli,“ segir Hallgrímur: „Þegar fyndnin fer með mann upp af koddanum og fram úr rúminu verður eina hjálp lesandans sú að ákalla meistarann gamla til samanburðar.

Kaflinn þar sem Eyja og Agga fara á „samningafund“ með súlustaðaeiganda er einn slíkur sem „ósjálfrátt“ flýgur inn í sýnisbók íslenskra bókmennta. … Það sem færir bók Auðar aukabónus er auðvitað tengingin við Gljúfrastein. Og já … hér er viðkvæmt efni á ferð. Því þótt glíma ungrar konu við ofurkarllæga nálægð gamla Nóbels sé erfið, nýtur Auður hennar líka. Ljóminn frá gamla lifir enn. Og lesandinn spyr sig: Værum við svona hrifin af bókinni ef þetta væri „venjuleg“ fjölskylda útí bæ? En slíkar vangaveltur eru til einskis. Auður er Auður. Fjölskyldan hennar er fjölskyldan hennar. Og bókin hennar er bókin hennar. Og í henni fer Eyja beint af fundinum með súlustaðaeigandanum, þennan lágpunkt íslenskrar menningar, í mat til ömmu sinnar á Gljúfrasteini, háhöll íslenskrar menningar. Hér myndast stór vídd, og eitthvað segir manni að sumt sé líkt með sumum. Hér birtist ættarstrengur: Við munum öll hin laxnesku einkenni: Snærisþjófur hjálpar Íslandssól, kotbóndi gefur konungi hest, strákur úr Mosó fer til Hollywood. Álíka fjarvíddir myndast í senunni þar sem fjörusúparinn og beitningamaðurinn að vestan, sá skemmtilega nefndi Garri, mætir ömmu Eyju, fjóluhærðri og fjaðurhattaðri á stigapalli. Þar er heilt þjóðfélag á milli. Og stúlkan Eyja.“

Og Hallgrímur spyr: „Hvernig stóð á því að slíkt undraverk hlaut ekki tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna?“

INNskráning

Nýskráning