Jón Ólafsson

„Mögnuð sagnfræði“

Appelsínur frá Abkasíu heitir ný bók Jóns Ólafssonar heimspekings og prófessors en undirtitill hennar er: Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. Í bókinni rekur Jón sögu Veru Hertzsch en nafn hennar varð vel þekkt á Íslandi þegar Halldór Laxness sagði frá kynnum sínum af henni í bókinni Skáldatíma árið 1963. Vera var þýsk kona sem bjó í Moskvu á árunum milli stríða, hafði verið í sambandi við íslenskan mann og eignast með honum dóttur. Þegar Halldór dvaldi í Sovétríkjunum 1938 heimsótti hann mæðgurnar og svo vildi til að hann varð vitni að því þegar öryggislögregla Stalíns knúði dyra og hafði Veru og ársgamla dóttur hennar, Erlu Sólveigu, á brott með sér. Til þeirra spurðist aldrei framar.

Jón hefur lagst í miklar rannsóknir á æviferli Veru og ýmsu sem tengist þeirri átakanlegu sögu. Í bókinni segir hann frá afdrifum mæðgnanna í Gúlaginu, fangabúðakerfi stjórnvalda, en fjallar einnig ítarlega um ógnarstjórn Stalíns og sérkennilegt þjóðfélagsástandið í Sovétríkjunum á þessum tíma, Íslendinga sem þar dvöldu og uppgjörið við Sovétkommúnismann sem fram fór áratugum síðar.

Bókin kom út seint í október og er skemmst frá því að segja að hún hefur hlotið frábærar viðtökur gagnrýnenda. Ingi Freyr Vilhjálmsson gefur henni fjórar og hálfa stjörnu í DV og segir m.a. í löngum og ítarlegum dómi að hún sé „vel heppnuð“ og „listilega vel gerð“. Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar í Morgunblaðið að um sé að ræða „sérlega vel skrifað og vandlega unnið verk og gríðarlega áhrifamikið“ og í Kiljunni voru þáttarstjórnandinn Egill Helgason og gagnrýnendurnir Fríða Björk Ingvarsdóttir og Eiríkur Guðmundsson á einu máli um að bókin væri vönduð og vel unnin merkisbók; „mögnuð sagnfræði“ sagði Fríða Björk.

INNskráning

Nýskráning