Níu bækur frá Forlaginu tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 voru kynntar á föstudaginn og af tuttugu tilnefningum á Forlagið níu.

Hér eru tilnefndu verkin og umsagnir dómnefndar.

Sæluríkið eftir Arnald Indriðason er tilnefnt til Blóðdropans
„Firnagóð flétta þar sem þræðir spillingar við úrlausn gamals morðmáls vefast saman við tortryggni kaldastríðsáranna og manndráps í nútímanum. Umhverfis- og samfélagslýsingar áhrifaríkar og persónusköpun hreint afbragð.“

Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur
„Margslungin, þétt og spennandi örlagasaga. Djúpri sorg og söknuði er lýst af einstakri næmni og listfengi. Persónusköpunin er einkar vel heppnuð og tengingu manns og náttúru gerð skil á athyglisverðan hátt. Ólgandi tilfinningar persóna eiga sér samhljóm í náttúruöflunum þegar sár leyndarmál koma í ljós.“

Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl
„Söguleg skáldsaga, full af húmor og skrifuð af mikilli orðgnótt. Söguna einkennir rífandi frásagnargleði, listfengi í stíl og frumlegur söguþráður. Þrátt fyrir fjörið og léttleikann er hér tekist á við stórar heimspekilegar spurningar svo úr verður innhaldsríkt og eftirtektarvert skáldverk.“

Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur
„Vel skrifuð, þrælspennandi og áhugaverð bók. Heimildavinna skilar lifandi lýsingu á menningu, lífsháttum og ferðum fornmanna sem hrífur lesanda með sér. Vilborg sækir í íslenskan sagnabrunn og má segja að Land næturinnar sé kóróna á sérlega vönduðu höfundarverki undanfarna áratugi.“

Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg: Baráttusaga Guðrúnar Jónsdóttur eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur
„Áhrifarík bók þar sem Guðrún hlífir hvorki sjálfri sér né öðrum. Skrifuð af ástríðu fyrir efninu og fjallar um ævistarf konu í þágu kvenna.“

Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfund
„Stórkostlega fyndin, einlæg og átakanleg frásögn sem spilar á allan tilfinningaskalann. Sagan, sem tekur áreynslulaust á málefnum líðandi stundar, er skemmtilega myndlýst, auðlesin og persónusköpun höfundar einstök.“

Hrím eftir Hildi Knútsdóttur
„Vel skrifuð og heillandi þroskasaga sem fjallar um erfiða lífsbaráttu, hugrekki, ástina og trúna á sjálfan sig í heimi sem er svo nálægt okkur en samt svo fjarri. Höfundur býr til mjög trúverðugan hugarheim og tekst að halda lesandanum spenntum frá upphafi til enda.“

Hamfarir (Vísindalæsi #4) eftir Sævar Helga Bragason og Elías Rúna myndhöfund
„Hnyttin og fræðandi bók um áhrifamátt hamfara, svo sem tilurð tungls og jarðar, þróun súrefnis og örlög risaeðla. Einstaklega vel myndlýst frásögn sem hvetur til umhugsunar um örlög jarðarinnar og hvort við getum enn haft einhver áhrif.“

Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur
„Frumleg saga sem fjallar á meinfyndinn en einlægan hátt um líf barna hinna svokölluðu áhrifavalda. Hvers virði er einkalífið? Er hægt að setja það upp í súlurit og kökur? Hve mikið ætlum við að láta snjalltækin stjórna lífi okkar?“

Forlagið óskar þessum höfundum innilega til hamingju með tilnefningarnar!

INNskráning

Nýskráning