Ákall til samviskunnar í nafni mannúðar

Ég var á leið til baka frá Noregi og Íslandi skömmu eftir enn eina „aðgerð“ Ísraels gegn óvopnuðum borgurum. Ísraelski sjóherinn fór að minnsta kosti 50 mílur inn á alþjóðlegt hafsvæði og fór um borð í alþjóðlega skipalest með hjálpargögn á vegum Hreyfingarinnar til frelsunar Gaza. Um borð var matur, lyf, skólagögn og byggingarefni handa umsetnum og svöngum íbúum Gaza. Óháðir aðilar höfðu skoðað skipið og sömuleiðis tyrknesk yfirvöld. Þetta vissu Ísraelar. Nú hafa níu óvopnaðir borgarar verið myrtir. Ísraelar neituðu að greina frá nöfnum þeirra og 680 manns voru fluttir á staði, sem ekki hafa verið gefnir upp. Með því að halda einu vitnunum að þessum glæp stálu Ísraelar dýrmætum tíma til að breiða út áróður sinn og spinna frásögnina sér í hag.

Áróður Ísraela

Áður en nokkur náði að bregðast við voru ísraelskir almannatenglar og talsmenn byrjaðir að senda frá sér efni og veita viðtöl. Þeirra fullyrðingar eru í þessa veru: „Óróaseggir“ úr öllum heimshornum vörpuðu öllu frá sér til þess að safnast saman um borð í skipi til þess að lokka ísraelska sérsveitarmenn út á alþjóðlegt hafsvæði og ráðast á þá með lurkum og eldhúshnífum. Þessir þrautþjálfuðu ísraelsku sérsveitarmenn, sem eru búnir þróuðustu og tæknilega fullkomnustu vopnum sem um getur, áttu ekki annars kost en að drepa óvopnaða borgara í þessu skipi. Því var um að ræða „sjálfsvörn“ Ísraels gegn „hryðjuverkamönnum“ og samtökum með „tengsl við Hamas og al-Qaeda“ – þessi upplogna þula er orðin þreytandi.

Misnotkun tungunnar linnir ekki þar. Ísraelar halda því að auki fram að villimannsleg eyðilegging þeirra á Gaza sé „hafnbann“ og því lögleg – rétt eins og alþjóðlegt svelti og niðurrif heillar þjóðar sé lögmætt!

Vinir mínir stofnuðu hreyfinguna Frelsum Gaza – venjulegir borgarar þessa heims, sem neituðu að fela sig á bak við orð eins og „ég vissi ekki“ eða „hvað gat ég gert“ á meðan Ísraelar breyttu Gaza smám saman í dauðabúðir þar sem matur og lyf eru ekki leyfð í nægilegu magni. Afleiðingarnar blasa við í skýrslum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO; víðtæk vannæring þannig að í það minnsta 10% barna á Gasa stækka ekki eðlilega út af matarskorti; menntakerfi, sem er nánast hrunið, ekki síst vegna þess að Ísraelar hafa varpað sprengjum á hundruð skóla á Gaza og halda áfram að koma í veg fyrir innflutning bóka og skólagagna; Ísraelar láta dauðann rigna af himnum ofan á íbúa, sem eru í haldi, geta ekkert flúið og hvergi leitað skjóls, og þúsundir hafa látið lífið og særst og 80% af börnum á Gaza þjást af áfallastreituröskun, lamandi áþján, sem gæti hæglega leitt til þess að heilar kynslóðir barna glatist; þar sem atvinna (ekki atvinnuleysi) er í kringum 20%; ekki er hægt að gera við holræsakerfið eftir árásir Ísraela og hreint vatn er munaður fárra; þar sem sjómenn verða fyrir skotárás Ísraela reyni þeir að róa til fiskjar í sinni eigin landhelgi; þar sem sykursjúkir, asmasjúklingar, nýrnasjúklingar og krabbameinssjúklingar deyja vegna þess að þeir fá ekki nauðsynlegustu lyf og geta ekki farið til að leita sér hjálpar í öðrum löndum.

Íbúar Gasa yfirgefnir

Því er þannig að varið að Ísraelar og „alþjóðasamfélagið“ hafa skilið íbúa Gaza eftir og leyfa þeim að vaða eigin úrgang, drekka eitrað vatn, betla sér mat, gera í buxurnar á nóttunni og skjálfa af ótta í örmum jafn ráðvilltra foreldra án þess að geta unnið, veitt fisk eða menntað sig; án þess að geta andað eða fundið von á þessari örmjóu landræmu, sem er eins og fangelsi, á meðan leiðtogar heims koma saman til að ráða í „frásagnir sem stangast á“, gefa út máttlausar „yfirlýsingar“ og kveðja á sinn fund ísraelska sendiherra til að slá létt á höndina á þeim.

Því má reyndar bæta við að á meðal þessara svokölluðu „óróaseggja“ og „hryðjuverkamanna“ með alþjóðleg „hryðjuverkasambönd“ eru einstaklingar á borð við Hedy Epstein, 85 ára gamla konu, sem lifði af helförina, Mairead McGuire, írskan nóbelsverðlaunahafa, Henning Mankell, þekktan sænskan rithöfund, barn, sem ég þekki ekki með nafni, blaðamann fyrir Al-Jazeera og marga aðra þekkta og óþekkta framúrskarandi einstaklinga úr öllum stéttum og frá fjölda landa. Þau eru hetjurnar mínar. Þau eru að gera það, sem þjóðarleiðtogar hafa ekki gert, það er að rísa upp gegn öfgakenndri þjóðernishyggju, harðræði og kúgun. Ég trúi ekki eitt augnablik þeirri lygi að þessir einstaklingar hafi verið með byssur og hleypt af þeim.

Hverju trúir þú?

Og það sem meira er, hvað ætlar þú að gera?

Takið afstöðu

Ferð mín til Noregs og Íslands var sú fyrsta til hvors lands. Aðeins hlýja, skopskyn og gestrisni íbúanna skákaði fegurð þessara landa. Það er því í nafni þessara fyrstu kynna og nýrrar vináttu, í nafni mannúðar, sem ég höfða til samvisku ykkar og hvet til aðgerða – að þið spyrjið ykkur hvað Palestínumenn hafi gert til að verðskulda slík örlög. Hvað við höfum gert til að verðskulda þögn heimsins á meðan Ísralear þurrka okkar hægt og grimmilega út af landakortinu og eyðileggja samfélag okkar og drepa síðan þá réttsýnu einstaklinga, sem reyna að veita mennsku okkar lágmarksviðurkenningu? Ég hvet ykkur til að taka grundvallarafstöðu með einhverjum hætti, jafnvel þótt leiðtogar ykkar geri það ekki.

Grein rithöfundarins Susan Abulhawa, höfundar bókarinnar Morgnar í Jenín, birtist í Morgunblaðinu í dag.

INNskráning

Nýskráning