Fjöruverðlaunin 2013

Auður fékk Fjöruverðlaunin

Fjöruverðlaunin voru veitt á sunnudaginn í sjöunda sinn við hátíðlega athöfn í Iðnó. Áður en verðlaunin voru afhent hélt frú Vigdís Finnbogadóttir fjöruga og fróðlega tölu um félagsskap kvenna í leiðtogastarfi, síðan kom Katrín Jakobsdóttir á svið til að afhenda verðlaunin sem eru í þrem flokkum. Í flokki fagurbókmennta var Auður Jónsdóttir verðlaunuð fyrir skáldsögu sína Ósjálfrátt og rökstuddi nefndin valið með þessum orðum: „Í skáldsögunni Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur sest ung kona andspænis auðu blaði og lætur sig dreyma um að verða skáld. Í bókinni segir Auður á einlægan, heiðarlegan og kíminn hátt þroskasögu Eyju, ungrar konu sem er  „svo fastráðin í að skrifa skáldsögu einn daginn að hún hreiðrar um sig í höfðum annarra og hrifsar til sín hugsanir þeirra“.  (bls. 100)

Í bókinni er sagt frá átakanlegum atburðum og erfiðum aðstæðum með hlýju og skilningi án þess að hún verði nokkurn tíma væmin. Frásögnin er hreinskilin og vægðarlaus, en virðing, væntumþykja og djúpur mannskilningur einkennir lýsingar af sögupersónum. Samfélag og samband kvenna er í fyrirrúmi, mæðra og dætra, systra og frænkna, amma og ömmustelpna.

Sagan flakkar í tíma og rúmi og frásagnarháttur kallast á við óreiðuna í lífi aðalpersónunnar sem glímir við erfiðar fjölskylduaðstæður, áfengissýki ástvina og þær væntingar sem gerðar eru til barnabarns þjóðskálds. Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur er skáldleg ævisaga eða kannski ævileg skáldsaga, óvenju sterk og hlýleg frásögn af skáldum og litríkum persónum sem hreiðra um sig í höfði lesandans – og taka sér kirfilega bólfestu í huga hans.“

Þórdís Gísladóttir hlut barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Randalín og Mundi og fræðibókaverðlaunin hlaut Steinunn Kristjánsdóttir fyrir Söguna af klaustrinu á Skriðu.


Auður þakkaði fyrir sig með ræðu sem vakti bæði hlátur og samkennd í salnum: „Það hringdi í mig blaðakona og spurði hvernig mér þætti að fá verðlaun.
Ég áttaði mig ekki á hvort hún ætti við þessi tilteknu verðlaun eða verðlaun almennt, enda  nýrönkuð upp úr eftirmiðdagslúr í rigningu.
Til að hljóma ekki svefndrukkin, eða þaðan af verra: drukkin, flýtti ég mér að tippa á þessi tilteknu verðlaun og glutraði út úr mér að ég hefði vissulega velt fyrir mér hvort það væri nauðsynlegt að hafa sérstök bókmenntaverðlaun kvenna. Hvort það væri til hins góða eða ekki.
Ég man nefnilega eftir því að hafa diskúterað þetta við tengdamóður mína, Ingu Huld Hákonardóttur sagnfræðing og rithöfund, fyrir þó nokkrum árum í Kaupmannahöfn. Þá var hátt uppi á mér typpið, ég var nýbúin að fá Íslensku bókmenntaverðlaunin og ranghvolfdi augunum þegar hún sagðist vera að stofna til bókmenntaverðlauna kvenna ásamt nokkrum konum. Gott ef ég sat ekki gleiðfætt á hlýrabol, tautandi í ungæðislegum hroka að þetta yrðu bara verðlaun fyrir einhverjar beiskar kerlingar.
Þá sló þessi rólega kona þéttingsfast í borðið og sagði að hún hefði verið orðin fertug og búin að skilja við listamanninn á heimilinu þegar henni skildist loks að það væru ekki bara skrýtnar konur sem skrifuðu. Þá loksins áræddi hún að byrja að skrifa bækur fyrir alvöru og átti m.a. annars eftir að skrifa stórmerka bók: Fjarri hlýju hjónasængur.
Ég reyndi samstundis að telja henni trú um að þetta væri löngu liðin tíð. Að það væri bara tímaskekkja að vera eitthvað að velta sér upp úr þessu. Auðvitað væri það konum eins og henni að þakka að konur í dag hefðu það jafn náðugt og ég en það væri líka … tja, allt og sumt!
Núna í mars verð ég sjálf fertug og það hefur runnið upp fyrir mér að í reynd er aðeins augnablik síðan hún tengdamóðir mín var á sama aldri. Það er svo stutt síðan að bara skrýtnar konur skrifuðu að sú skynjun lifir ennþá í mörgum okkar; í gegnum foreldra okkar, ömmur og afa, frænkur og frændur. Sama þótt við þykjumst ekki kannast við hana þá bjó hún í þeim sem ólu okkur upp.
Reyndar er það ennþá þannig að töluvert fleiri karlar en konur gefa út verk, hvort sem um er að ræða bækur, leikrit eða handrit í kvikmyndaframleiðslu, þó að þær sem skrifi bækur hafi óneitanlega vinninginn.
Skriftir eru rödd. Þær setja mark á veruleikann, miðla honum og móta hann, festa fingur á grá svæði, brjóta upp viðteknar hugmyndir, fagna nýjum hugmyndum og fanga þær. Að skrifa er leit. Um leið eru skriftir samtal ólíkra menningarheima. Samtal þjóðanna, samtal fortíðar við framtíðina. Rödd mannkyns, bæði karla og kvenna. Svo lengi sem konur eru í minnihluta fær þessi rödd ekki að hljóma til fulls. Hún verður alltaf fölsk, sama hver ástæðan er, jafnvel þótt sökina sé stundum að finna hjá þeim sjálfum. Þeim sem leyfðu uppþvottavatninu að skola áræðninni út í sjó.
Hluti af því að skrifa er að taka gagnrýni, gefa skotleyfi á sig, hræðast eigin skrif en skrifa samt í von um að skilja eitthvað óljóst og til að taka þátt í samtalinu. Þess vegna þýðir ekki að vera tepra.
Það er allt í lagi að mistakast eða fá höfnun, skilningsvana lesendur eða hauskúpu í blaði. Við sem skrifum lendum óhjákvæmilega í því annað slagið. Það eina sem er ekki í lagi er að þora ekki að láta í sér heyra af því einhver ól mann einhvern tímann upp í því að taka ekki sénsinn. Einhver sagði einhvern tímann: Stattu þig og skrifaðu allt sem nútímakonur skrifa árið 2000og eitthvað en passaðu bara að stuða aldrei neinn eða það sem verra er, verða þér til minnkunar. Og reyndu svo að missa fimm kíló áður en þú ferð næst í sjónvarpsviðtal að tjá þig.
Sannleikurinn er sá að ég hef hitt of margar konur sem eru liprari með penna en skautadansari í sínum ólympíudansi, samt skrifa þær ekki; sumar byrjuðu kannski einhvern tímann en hættu svo. Ég hitti síðast slíkar konur í gær. Hvað aftrar þeim frá að taka af skarið? Það er á gráu svæði, býst ég við.
Það má líka rifja upp að merkilegar bækur, sem hafa hlotið lof víða um heim, eins og til dæmis Afleggjarinn, Karítas og á Eigin vegum fengu Fjöruverðlaunin á sínum tíma en ekki tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Af hverju veit ég ekki, það er reyndar umhugsunarvert að velta fyrir sér hvort Fjöruverðlaunin hafi átti sinn þátt í að velta þessum snjóboltum af stað.
Ég sagði við blaðakonuna að ég hefði komist að því að þessi tilteknu verðlaun væru nauðsynleg, án þess að geta útskýrt almennilega af hverju, það væri á gráu svæði en bókin mín væri það svosem líka, einhvers konar tilraun til að reyna að fanga einmitt þetta gráa svæði.
Að reyna að útskýra það frekar í svefndrukknu símaviðtali hljómaði í besta falli banalt og bauð heim misskilningi, ég þóttist vita það eftir að hafa skrifað mig í gegnum tæplega fjögur hundruð síður án þess að finna endanlegt svar. Um leið fannst mér ég svo ruglingsleg í viðtalinu að það hrökk út úr mér: Hljóma ég nokkuð eins og fávís kerling í ölæði?
Það var fátt um svör.
Aftur á móti langar mig að segja, hér og nú, að það er heiður að fá þessi verðlaun. En ég á þau ekki ein, heldur líka skáldasystur mínar sem gáfu þó nokkrar út frábærar og safaríkar bækur árið 2012. Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim, tengdamömmu minni, Silju ritstjóra og henni mömmu sem gaf mér allar sögurnar. Takk kærlega.“

INNskráning

Nýskráning