Stefán Máni

Úlfshjarta í bíó

Framleiðslufyrirtækið Filmus keypti nýverið kvikmyndaréttinn að bókinni Úlfshjarta eftir Stefán Mána. Óskar Þór Axelsson mun leikstýra myndinni og skrifa handritið að henni. Hann leikstýrði síðast myndinni Svartur á leik sem var byggð á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána.

Stefán Máni segir við Söru McMahon blaðamann Fréttablaðsins að mikið traust ríki á milli sín og Óskars Þórs enda þekkist þeir orðið vel. „Hann sannaði sig algjörlega síðast og það er frábært að fá tækifæri til að vinna með honum og framleiðandanum aftur. Þetta snýst mikið um traust því héðan í frá stjórna ég engu. Ég fylgist þó með gangi mála, eins og ég gerði með Svartur á leik, og verð þriðja augað,“ segir Stefán Máni.

Úlfshjarta kom út í liðnum mánuði og hefur verið afar vel tekið hjá gagnrýnendum og kaupendum, því bókin hefur setið ofarlega á metsölulista Eymundssonar allar götur frá útkomu. Því er næsta víst að einhverjir aðdáendur bíði spenntir eftir því að sjá Alexander og Védísi lifna við á hvíta tjaldinu.

INNskráning

Nýskráning