Blokkin á heimsenda tilnefnd til Þýsku barnabókaverðlaunanna

Nýlega var tilkynnt að Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur er ein sex bóka sem tilnefndar eru til Deutscher Jugendliteraturpreis í flokki skáldsagna fyrir börn. Um 7.500 barnabækur eru gefnar út árlega í Þýskalandi og voru 670 þeirra lagðar fram til verðlaunanna í ár. Tilnefningin er því mikill heiður, ekki síst vegna þess að frumsamdar bækur eru ekki aðgreindar frá þeim þýddu. Þýsku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1956 og eru einu bókmenntaverðlaunin í Þýskalandi sem hið opinbera veitir.

Blokkin á heimsenda kom út hjá Forlaginu árið 2020 eftir að hafa borið sigur úr býtum í samkeppninni um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, en hún hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka og var tilnefnd til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Útgáfufélagið Arena gefur bókina út í Þýskalandi undir heitinu 12 Stockwerke. Mein unglaubliches Zuhause am Ende der Welt í þýðingu Gisu Marehn.

Verðlaunin verða afhent á Bókamessunni í Frankfurt í október.

INNskráning

Nýskráning