Salla Simukka

Forlagið meðal stoltra útgefenda Salla Simukka

Rétt fyrir jól hlaut finnski höfundurinn Salla Simukka „Finland Prize 2013“ fyrir alþjóðlega velgengni spennubókaflokkar fyrir unglinga sem kenndur er við Mjallhvíti. Verðlaunin nema 26.000 evrum og skiptust að þessu sinni á milli sjö finnskra listamanna sem þóttu skara fram úr á árinu, í heimalandi sínu eða alþjóðlega. Fyrstu tvær bækurnar úr bókaflokknum eru komnar út í Finnlandi og nutu báðar mikilla vinsælda. Eftirtektarverðast þykir þó að áður en fyrsta bókin var komin út í Finnlandi höfðu fjölmargir erlendir útgefendur tryggt sér þýðingarréttinn að bókaflokknum. Nú hefur rétturinn verið seldur til 37 landa og enginn finnskur höfundur hefur notið jafn skjótrar og mikillar alþjóðlegrar hylli en Salla Simukka.

Salla Simukka stundaði nám í norrænum málvísindum, finnsku, bókmenntafræði, skapandi skrifum og kvennafræðum í háskólanum í Turku. Fyrsta bók hennar, ástarsagan Þegar englarnir líta undan (Kun enkelit katsovat muualle), kom út 2002 og áratug síðar komu framtíðartryllarnir Engin slóð (Jäljellä) og Annarstaðar (Toisaalla), en fyrir þá fékk Salla Topelius-verðlaunin 2013. En það var ekki fyrr en hún kynnti Mjallhvítarþríleikinn til leiks sem athygli erlendra útgefenda vaknaði. Fyrsta bókin, Rauð eins og blóð, kom út í Finnlandi vorið 2013 og miðbókin, Hvít eins og snjór, fylgdi í kjölfarið strax um haustið.

Forlagið er einn af hinum heppnu útgefendum sem hafa tryggt sér réttinn á þessum spennandi bókum og kemur sú fyrsta út í haust í þýðingu Erlu Elíasdóttur.

INNskráning

Nýskráning