Þú ert hér://Einar Már Guðmundsson
Einar Már Guðmundsson

Einar Már Guðmundsson

Einar Már Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 18. september 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1975 og B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979. Hann fór rakleiðis í framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla og gaf á þeim árum út fyrstu bækur sínar.

Einar Már hóf feril sinn með stæl, gaf út tvær ljóðabækur í einu árið 1980, Er nokkur í kórónafötum hér inni? og Sendisveinninn er einmana.  Þær vöktu rækilega athygli á þessu unga orðheppna skáldi og árið eftir kom sú þriðja sem þótti jafnvel toppa þær fyrri, Róbinson Krúsó snýr aftur. Árið þar á eftir, 1982, fékk hann fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins fyrir skáldsöguna Riddarar hringstigans og fylgdi henni eftir með tveim bókum, Vængjaslætti í þakrennum (1983) og Eftirmála regndropanna (1986). Þessi vinsæli þríleikur byggir upp heim sem er hliðstæður bernskuveröld Einars Más í nýju hverfi í austurbæ Reykjavíkur, slunginn ómótstæðilegum töfrum, en í lokin verður eins konar “heimsendir”.  Haustið 2005 var þríleikurinn gefinn út í einni bók undir heitinu Goðheimar bernskunnar. Síðan hefur Einar Már sent frá sér fjölda verka sem mörg hver snerta þennan sama heim, m.a. byggir frægasta skáldverk hans, Englar alheimsins (1993), á lífi og dauða eldri bróður hans. Fyrir þá sögu fékk Einar Már bæði Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, og eftir henni gerði Friðrik Þór Friðriksson eina vinsælustu kvikmynd íslenskrar kvikmyndasögu (2000).

Minningar frá unglingsárunum nýtir Einar Már sér meðal annars í skáldsögunum Rauðir dagar (1990) og Bítlaávarpið (2004), sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. En í þríleiknum Fótspor á himnum, Draumar á jörðu og Nafnlausir vegir (1997, 2000 og 2002) umskapar hann örlög ættmenna sinna á fyrri hluta 20. aldar í áhrifamiklu skáldverki. Tvær þær seinni voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Síðasta skáldsaga hans er Rimlar hugans (2007), óvenjuleg og áhrifamikil ástarsaga tveggja einstaklinga sem lenda í hremmingum eiturlyfja og berjast við að koma lífi sínu á réttan kjöl. Einnig hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Einar Már hefur ekki alveg yfirgefið ljóðadísina þótt skáldsagan hafi verið frekari á tíma hans. Síðari ljóðabækur hans eru Klettur í hafi (1991), sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, og Ég stytti mér leið framhjá dauðanum (2006). Hann hefur líka skrifað tvær barnabækur, Fólkið í steininum (1992) og Hundakexið (1993). Smásagnasöfn hans eru Leitin að dýragarðinum (1988) og Kannski er pósturinn svangur (2001) auk greinasafnsins Launsynir orðanna (1998). Einar Már skrifaði handritið að kvikmyndunum Börn náttúrunnar, Bíódagar og Englar alheimsins ásamt Friðriki Þór Friðrikssyni leikstjóra. Ennfremur hefur hann þýtt bækur og skrifað greinar um bókmenntir í hérlend og erlend tímarit.

Einar Már hefur verið áhugasamur um þjóðfélagsmál frá unga aldri og lét mjög til sín taka í umræðum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og sjálfri búsáhaldabyltingunni á útmánuðum 2009. Um þau málefni fjallar Hvíta bókin hans sem kom út vorið 2009 og vakti mikla athygli hér heima og í grannlöndunum. Hann fylgdi henni eftir árið 2011 með bókinni Bankastræti núll.

Einar Már Guðmundsson hefur verið meðal virtustu og vinsælustu skálda og rithöfunda þjóðarinnar frá upphafi ferils síns. Hróður hans hefur borist víða því bækur hans hafa verið þýddar á mörg tungumál og orðið vinsælar, ekki síst Englar alheimsins sem er ein víðförlasta skáldsaga eftir Íslending fyrr og síðar. Einari Má hefur verið veittur margvíslegur heiður, meðal annars fékk hann Bjartsýnisverðlaun Bröstes (1988), Karen Blixen Medaljen, heiðursverðlaunin sem veitt eru af Det Danske Akademi (1999), ítölsku Giuseppe Acerbi bókmenntaverðlaunin (1999), norsku Bjørnsonverðlaunin (2010) og Norrænu bókmenntaverðlaunin sem Sænska akademían veitir (2012).

Einar Már hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsögu sína Hundadaga, árið 2015.