Gerður Kristný

Kraftmikið innlegg í eilífa baráttu kynjanna

Magnus Ringgren fjallaði um Blóðhófni, verðlaunaljóðabók Gerðar Kristnýjar, í Aftonbladet í gær en bókin er nýkomin út í sænskri þýðingu Johns Swedenmarks. Grein Ringgrens ber yfirskriftina „Forn íslenskur kveðskapur á einnig erindi við nútímann“ og vísar þar til þess að kvæðið styðst við söguþráð eddukvæðisins Skírnismála. Hann rekur efnisþráð Skírnismála fyrir lesendum blaðsins, söguna um það þegar Freyr sendir skósvein sinn Skírni til að biðja jötnameyjarinnar Gerðar fyrir sína hönd, og hvernig hún streitist á móti en bugast loks undan hótunum hans. „Góður efniviður,“ er niðurstaða Ringgrens, „og ef maður heitir Gerður Kristný og er þar með nafna jötnameyjarinnar, fædd 1970 á Íslandi og rithöfundur, hlýtur að hafa verið óumflýjanlegt að nota hann.“

Ringgren segir að ljóðmál Gerðar, stuðlasetning og hrynjandi, kallist sterklega á við eddukvæðin gömlu og hrósar John Swedenmark fyrir hversu vel honum tekst að koma þessu til skila í sænsku þýðingunni. Það er enda vandaverk því texti Gerðar er meitlaður og knappur eins og íslenskir lesendur þekkja.

Að lokum rýnir Ringgren í boðskap kvæðisins. „Þetta er ofbeldisfullt brúðarrán. „Sverðið / spegill sálarinnar“ skilur stúlkuna frá heimili og móður og öryggi. Það fær hún aldrei aftur. Án þess að predika verður texti Gerðar Kristnýjar þannig kraftmikið innlegg í eilífa baráttu kynjanna.“

Blóðhófnir er einnig komin út í enskri, danskri og finnskri þýðingu og hefur hvarvetna hlotið feykigóðar viðtökur. Fyrir bókina hlaut Gerður Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Blóðhófnir er uppseld á íslensku en er væntanleg í heildarljóðasafni Gerðar Kristnýjar sem kemur út að ári.

INNskráning

Nýskráning