Maxímús dansar

Maxímús stafrænn!

Hugbúnaðarhúsið Fancy Pants Global hefur gefið út tölvuleikinn Maximus Musicus fyrir iPhone, iPad og iPod Touch. Leikurinn er byggður á vinsælum barnabókum Hallfríðar Ólafsdóttur og Þórarins Más Baldurssonar um forvitnu og tónelsku músina Maxímús Músíkús þar sem hann fræðist um heim tónlistarinnar og hljóðfæranna. Leikurinn samanstendur af  sjö smáleikjum sem koma inn á mismunandi þætti tónlistar og er unninn í nánu samstarfi við höfunda og aðstandendur músarinnar, Maximus Musicus ehf.

Aðalhluti Maxaleiksins er sýndarútgáfa af vinsælum hljóðfærum.  Börnin geta leikið á hörpu, slagverk, sýlófón eða píanó, annað hvort eftir eigin höfði eða með aðstoð einfalds minnisleiks sem reynir jafnt á sjónrænt- sem tónrænt minni þeirra. Einnig er hægt að leysa myndapúsl og giska á hvaða hljóðfæri er í leynikassanum.

Í kjölfarið af útgáfu Maximus leiksins mun Fancy Pants Global einnig gefa út sérstaka jólaútgáfu undir nafninu Maxi‘s Holiday Piano. Þar geta notendur lært að spila nokkur sígild jólalög á píanó. Maxi‘s Holiday Piano verður ókeypis og verður einnig gefinn út fyrir iPhone, iPod Touch og iPad.

Umsagnir um leikinn eru þegar farnar að berast og hjóðar ein á þessa leið: „Hugvitssamlega hannaður og frábærlega sniðinn leikur með Maxímús – fullt af fjöri fyrir börnin sem um leið er tónlistarkennsla sem foreldrarnir munu elska.“

INNskráning

Nýskráning