Í leiðinni er fyrsta ljóðabók Ara Trausta Guðmundssonar og hefur að geyma tæp 60 ljóð. Yrkisefnin eru margvísleg en bókin ber þess merki að höfundurinn hefur víða farið og safnað í reynslusarpinn: Hann yrkir um fólk og fjallgöngur, heimsreisur og heimahaga, hversdagslíf og heimsviðburði - manneskjuna andspænis náttúrunni og í náttúrunni. Ljóðin spegla einlægan áhuga á framandi mannlífi og aðstæðum, en um leið glöggt auga fyrir hinu smáa og hversdagslega sem líður hjá í dagsins önn. Bókina prýða nokkrar ljósmyndir eftir Ragnar Th. Sigurðsson og Ara Trausta.

Ari Trausti er landsmönnum að góðu kunnur, ekki síst fyrir fróðlegar og vinsælar bækur sínar um íslenska náttúru og jarðfræði. Hann hefur einnig getið sér gott orð fyrir skáldskap og árið 2002 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir smásagnasafnið Vegalínur.