Höfundar: Sverrir Kristjánsson, Guðrún Sverrisdóttir, Sigurjón Sverrisson, Ægir Einarov Sverrisson

Íslenzkir örlagaþættir nefndust geysivinsælar bækur sem komu út á árunum 1964–1973 og voru eftir þá Sverri Kristjánsson sagnfræðing og Tómas Guðmundsson skáld. Í þessari bók er birt úrval úr þáttum Sverris.

Hér er fjallað um skáldin Hallgrím Pétursson, Bólu-Hjálmar og Bjarna Thorarensen en líka sagt frá örlögum fólks úr þjóðardjúpinu sem ekki varð nafnkunnugt. Óhugnanleg glæpamál eru rakin, morð, þjófnaðir og ill meðferð á niðursetningum; sögð ævintýraleg saga Odds lögmanns Sigurðssonar, mesta valdamanns landsins á 18. öld; fylgt uppgangi og falli Þorvalds á Þorvaldseyri. Og er þá fátt eitt talið af efni bókarinnar.

Sverrir Kristjánsson var einn ritfærasti Íslendingur síðustu aldar. Hann hafði einstakt vald á mannlýsingum og í þessum þjóðlífsþáttum nýtur sín vel svipmikill stíll hans, skáldlegt innsæi, meðlíðan, yfirsýn og sviðsetningargáfa. Þetta er þjóðlegur fróðleikur eins og hann verður bestur.

Guðmundur Andri Thorsson annaðist úrvalið og ritar inngang.

 

„Hann var sá eini útvaldi í hópi íslenskra sagnfræðinga á síðari helmingi 20. aldar.“
Björn Þorsteinsson, sagnfræðiprófessor

„Stundum finnst mér hann tala og skrifa íslensku best okkar samtíðarmanna. Mál hans ilmaði af öllu sem íslenskt er.“
Sveinn Skorri Höskuldsson