Ljóð Öldu Bjarkar snúast um mörk tjáningarinnar, strengina sem liggja milli einstaklingsins og tilvistarinnar, sambönd sem verða til og rofna, og þörfina á að nefna veruleikann, jafnt til góðs og ills.

Alda Björk Valdimarsdóttir er kennari í Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands. Hún er með doktorspróf í bókmenntum og skrifaði ritgerð sína um Jane Austen. Alda hefur birt ljóð sín víða, m.a. í TMM og Stínu og var valin Háskólaskáldið 2013 í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins.

Konan fékk rödd karlsins
lánaða stutta stund.

Hún tók við nafni hans
eins og brauðmola.

Hún drakk vatn
úr lófa hans.

Hún sá auga sitt
í enni hans,

sjálfa sig án nafns og orða.