Framúrskarandi rit tilnefnd
Fjögur framúrskarandi rit frá Forlaginu voru tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis 2014. Tilnefningarnar voru kynntar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið í dag.
Brynja Þorgeirsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason eru tilnefnd fyrir bókina Orðbragð.
Umsögn: Fersk og skemmtileg nálgun að íslenskri tungu. Fróðleik og umræðu um álitamál er haganlega fléttað saman.
Jón G. Friðjónsson er tilnefndur fyrir bókina Orð að sönnu – íslenskir málshættir og orðskviðir.
Umsögn: Menningarsögulegt eljuverk þar sem höfundur hefur safnað íslenskum málsháttum frá fornu máli til nútíma og skýrir merkingu þeirra og uppruna.
Ragnhildur Richter, Sigríður Stefánsdóttir og Steingrímur Þórðarson eru tilnefnd fyrir Íslenska fjögur – kennslubók í íslensku fyrir framhaldsskóla.
Umsögn: Vel unnin og skýr kennslubók þar sem eftirtektarverður metnaður í aðlaðandi framsetningu auðveldar nemendum og kennurum notkun hennar.
Snorri Baldursson er tilnefndur fyrir Lífríki Íslands – vistkerfi lands og sjávar.
Umsögn: Í miklu og vönduðu verki gerir höfundur grein fyrir því hvernig vistkerfi landsins mótast af ytri skilyrðum náttúrunnar og á hvern hátt hinar ýmsu lífverur tengjast gangverki þeirra.
Borgarbóksafn og Hagþenkir munu í framhaldinu skipuleggja fyrirlestraröð í samstarfi við tilnefnda höfunda þar sem verk þeirra verða kynnt.
Hagþenkir, sem er félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt árlega viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum, stendur að valinu.
Viðurkenning Hagþenkis 2014 verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars. Verðlaunafé nemur einni milljón króna.