Þú ert hér://Brian Pilkington
Brian Pilkington

Brian Pilkington

Brian Pilkington er fæddur í Englandi 1950. Hann er þekktur fyrir snjallar bókaskreytingar og hefur skrifað og myndskreytt fjölda barnabóka, bæði fyrir íslenskan og erlendan markað.

Meðal bóka Brians má nefna Ástarsaga úr fjöllunum (höfundur texta: Guðrún Helgadóttir 1981) og Blómin á þakinu (höfundur texta: Ingibjörg Sigurðardóttir 1985).

Bækur Brians um íslenska þjóðtrú og vættir vakið athygli innan lands og utan. Alfræði íslenskra trölla, Allt um tröll / Icelandic Trolls (1999), hlaut viðurkenningu ferðamálaráðs sem besta hugmynd að minjagrip frá Íslandi og hefur þegar komið út á nokkrum tungumálum. Í kjölfar hennar komu bækur um íslensku jólasveinana og huldufólk sem sömuleiðis hafa komið út á íslensku og erlendum tungumálum fyrir ferðamenn.

Brian hlaut Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1985 ásamt Þráni Bertelssyni fyrir bókina Hundrað ára afmælið og Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin árið 2003 fyrir bók sína Mánasteinar í vasanum.