Þú ert hér://Kristín Ómarsdóttir
Kristín Ómarsdóttir

Kristín Ómarsdóttir

Kristín Ómarsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1981 og stundaði síðan nám í íslensku, almennri bókmenntafræði og spænsku við Háskóla Íslands.

Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikritið Ástarsaga 3 til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Hún fékk og Menningarverðlaun DV í flokki bókmennta árið 1998. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra.

Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.