Þú ert hér://Sævar Helgi Bragason
Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi Bragason er fæddur í Reykjavík 17. apríl 1984. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og B.Sc. gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Sævar hefur starfað við vísindamiðlun hjá Háskóla Íslands, kennt stjarnvísindi í framhaldsskólum, í Háskóla unga fólksins, Háskólalestinni og Vísindasmiðjunni. Hann er einnig tíður gestur í ýmsum fjölmiðlum þegar rætt er um vísindi.

Sævar hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir störf sín. Árið 2014 hlaut hann viðurkenninguna Framúrskarandi ungur Íslendingur og árið 2016 hlaut hann viðurkenningu frá Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi vísindamiðlun. Sævar hafði einnig umsjón með einu stærsta vísindamiðlunarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi, þegar öllum nemendum og kennurum á Íslandi voru færð sérstök gleraugu til að fylgjast með sólmyrkvanum 20. mars 2015. Síðar sama ár kom út bókin Vísindabók Villa: Geimurinn og geimferðir sem hann skrifaði ásamt Vilhelm Anton Jónssyni.