Gleði mikil var ríkjandi á Rauðsstöðum í Borgarfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar, 16. september 2017. Þá sprengdi samgönguráðherrann okkar, Jón Gunnarsson, fyrstu sprenginguna í gangamunna Dýrafjarðarganga, en hann er í landi Rauðsstaða. Í framhaldi af ráðherrasprengingunni sprakk svo ríkisstjórnin um kvöldið. En allir vita að ekkert samband er náttúrlega þar á milli!

Einar Benediktsson orti:

„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“

Í þessari handhægu bók er aðeins hugað að fortíð jarðanna Rauðsstaða og Borgar við þessi merku tímamót í samgöngusögu Vestfjarða. Gangamunninn er nefnilega aðeins nokkra metra frá bæjarstæði Rauðsstaða og skammt er til Borgar í öllu tilliti. En hér er ekki á nokkurn hátt verið að fjalla um göngin sem slík.

Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til Búnaðarfélags Auðkúluhrepps.