Hér fara æviminningar hundheppna hamingjudýrsins Gríms Fífils. Hann var fuglaveiðihundur sem veiddi aldrei fugla þótt hann gerði stundum flugu mein. Besta og Fúli völdu hann sérstaklega upp úr hvolpabæli úti í bæ og hann bjó með þeim og krílunum alla sína hundstíð. Grímur Fífill fór í hundaskóla en það átti ekki við hann. Samt kenndi Grímur Bestu og Fúla miklu meira en þeim tókst nokkru sinni að kenna honum. Góðir vinir ganga ekki endilega allir á tveimur fótum.

Grímur Fífill fól Kristínu Helgu Gunnarsdóttur að rita ævisögu sína, enda er hún með áratuga reynslu í að tala við hunda. Síðan bað hann Halldór Baldursson að teikna myndirnar því hann kann líka hundamál.

Grímsævintýri var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2012 sem besta barnabókin.