Són tímarit – 2021 árgangur 19
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2021 | 150 | 3.490 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2021 | 150 | 3.490 kr. |
Um bókina
Són, tímarit um ljóðlist og óðfræði, kemur út árlega og birtir ritrýndar rannsóknargreinar og yfirlitsgreinar um hvaðeina á sviði ljóðlistar, skáldskaparmála og bragfræði. Auk þess birtir tímaritið ritstýrðar umræðugreinar og smágreinar á sama sviði, umfjöllun og ritdóma um ljóðabækur og fræðirit. Á milli greina eru frumbirt ljóð eða ljóðaþýðingar skálda sem leitað hefur verið til. Sérstakan heiðurssess skipar Sónarskáldið hverju sinni með fyrsta ljóð hvers heftis.
Heftið inniheldur að þessu sinni eina ritrýnda rannsóknargrein þar sem Haukur Þorgeirsson fjallar um rímur, aldur þeirra og höfunda.
Einnig eru birtar fjórar umræðugreinar og spanna þær breitt tímasvið frá fornöld til samtíma. Rósa Þorsteinsdóttir fjallar um kveðskap Bjarna Sveinssonar (1813–1889), Ægir Þór Jähnke skrifar um Nóbelsskáldið Louise Glück og list hennar, Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir fjallar um latnesk ljóðabréf eftir rómversku skáldin Sextus Propertius og Publius Ovidius Naso og loks birta Elínrós Þorkelsdóttir og Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir grein um hvernig megi nota ljóð til kennslu í íslensku sem öðru máli, ásamt frumsömdu kennsluefni.
Venju samkvæmt frumbirtir Són ljóð og þýðingar. Frumort ljóð eiga Sigurlín Hermannsdóttir, Tómas Ævar Ólafsson og Stefán Snævarr en finna má nýjar þýðingar Hannesar Péturssonar á ljóði serbneska skáldsins Miodrags Pavlović, Atla Ingólfssonar á ljóði Oceans Vuongs og Erlends S. Eyfjörðs á ljóði Konstantinosar P. Kavafis.
Són birtir jafnframt vandaða ritdóma um valdar ljóðabækur sem komu út á árinu 2021.
Loks frumbirtir Són glænýtt ljóð eftir Guðrúnu Hannesdóttur sem er Sónarskáld ársins 2021.
Eldri árganga má nálgast í Bókabúð Forlagsins, Fiskislóð 39