Hann hét Jón Jónsson og var á leið til Kaupmannahafnar árið 1658 en það var stríð og hann var færður til hafnar í Gautaborg. Þaðan var hann sendur í skóla Pers Brahes í Visingsey og kom aldrei aftur til Íslands.

Eftir skólavistina kallaði hann sig Jonas Rugman og árið 1662 lá leið hans til Uppsala þar sem hann varð fyrsti íslenski stúdentinn og ómetanlegur aðstoðarmaður lærdómsmanna sem þurftu á íslenskum heimildum að halda.

Sagan fór um hann heldur ómildum höndum, hann var sagður drykkfelldur, kvensamur, óáreiðanlegur og fákunnandi. Árið 1664 var hann einn þeirra sem gáfu út fyrstu íslensku fornsöguna og þá með þýðingu á sænsku og 1670 þýddi hann á sænsku stytta gerð af Heimskringlu, Sverris sögu og Skáldatal.

Án afrita hans af Háttalykli Rögnvaldar Kala og Halls Þórarinssonar vissum við ekkert um texta þess einstaka kvæðis. Nýlega hefur verið bent á að hann skrifaði eina eintakið sem þekkt er af merkilegu erfiljóði eftir Hallgrím Pétursson.

Heimir Pálsson hefur undanfarin ár reynt að grafast fyrir um lífshlaup Jonasar Rugmans og leggja mat á verk hans. Hann lítur á verk sitt sem málsvörn menningaröreiga.