Þú ert hér://Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason er fæddur í Reykjavík 14. júlí árið 1973. Hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans við Sund árið 1993 og BA-prófi frá íslenskudeild HÍ árið 1997.

Fyrsta bók Andra Snæs var Ljóðasmygl og skáldarán sem kom út hjá bókaforlaginu Nykri árið 1995 og vakti töluverða athygli. Bónusljóð kom út hjá verslunarrisanum Bónus árið 1996 og sama ár gaf Mál og menning út smásagnasafnið Engar smá sögur. Fjölmargar til viðbótar hafa komið út og jafnan vakið mikla athygli. Líklega er Draumalandið sú sem mest áhrif hefur haft en fullyrða má að hún hafi haft veruleg áhrif á það hvernig Íslendingar líta á sjálfa sig og landið sitt.

Fyrir Söguna af bláa hnettinum sem Áslaug Jónsdóttir myndskreytti hlaut Andri Snær Íslensku bókmenntaverðlaunin 1999 í flokki fagurbókmennta og var það í fyrsta sinn sem barnabók hlýtur þau verðlaun. Bókin hefur nú verið þýdd á nokkur erlend tungumál. Árið 2002 hlaut Andri Snær Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir skáldsöguna LoveStar og árið 2006 hlaut hann öðru sinni Íslensku bókmenntaverðlaunin – nú í flokki fræðirita – fyrir Draumalandið. Árið 2013 kom barnabókin Tímakistan út og fyrir hana hlaut Andri Snær Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn, í nýjum flokki barnabóka. Jafnframt fékk hann Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina. Smásagnasafnið Sofðu ást mín kom svo út 2016.