Heimili höfundanna

Gerður Kristný
Gerður Kristný

Gerður Kristný, fædd 1970, lauk B.A.-prófi í frönsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og stundaði því næst nám í hagnýtri fjölmiðlun. Hún var ritstjóri tímaritsins Mannlífs á árunum 1998 til 2004 og hefur verið vinsæll lausapenni hjá ýmsum fjölmiðlum eftir að hún varð rithöfundur í fullu starfi. Undanfarin ár hafa pistlar eftir hana birst reglulega hjá dagblaðinu Klassekampen í Noregi.

Gerður hefur sent frá sér smásögur, skáldsögur, barnabækur og bækur almenns efnis en þekktust er hún fyrir ljóðabækur sínar og -bálka, svo sem Blóðhófni, Drápu og Sálumessu, sem vakið hafa aðdáun, jafnt heima sem erlendis.

Gerður hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar, m.a. Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Bókaverðlaun barnanna fyrir Mörtu smörtu, Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndina af pabba – Sögu Thelmu og Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir Garðinn. Gerður Kristný var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabækurnar Höggstað og Sálumessu, og hlaut þau verðlaun fyrir Blóðhófni, sem jafnframt var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þá hefur Gerður í þrígang fengið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana.

Ljóð og smásögur Gerðar hafa verið birt í kennslubókum fyrir grunn- og menntaskóla og í ýmsum safnritum, erlendum sem íslenskum. Ljóðaflokkurinn Blóðhófnir hefur gert víðreist um veröldina með höfundi sínum og  komið út í heilu lagi í Englandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.

INNskráning

Nýskráning

nýskráning