Langflest þurfum við á einhverjum tímapunkti að koma fram og tala fyrir framan hóp fólks. Framkoma getur haft mikil áhrif á það hvernig aðrir meðtaka það sem við segjum. Við höfum öll eitthvað fram að færa en við sannfærum engan ef við getum ekki komið því frá okkur á réttan hátt.

Sterkir og eftirminnilegir leiðtogar eiga það sameiginlegt að geta miðlað upplýsingum vel og verið gríðarlega sannfærandi. Það þýðir þó ekki að hæfileikarnir séu meðfæddir því flestir þeirra hafa lagt metnað í að þjálfa þennan hæfileika á markvissan hátt.

Í Framkomu er farið yfir grundvallaratriði þess að koma sér á framfæri á fjölbreyttum vettvangi. Í bókinni eru birt góð ráð frá reynslumiklu fólki í fjölmiðlum og atvinnulífinu. Edda Hermannsdóttir, höfundur bókarinnar, hefur starfað í fjölmiðlum og við upplýsingagjöf um árabil og haldið vinsæl námskeið um framkomu.