Þú ert hér://Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga

Höfundur: Sigrún Pálsdóttir

Haustið 1940 lögðu tveir ungir íslenskir læknar, hjónin Friðgeir Ólason og Sigrún Briem, af stað áleiðis til Bandaríkjanna í sérnám. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur til Íslands; hann með doktorspróf frá Harvard, hún rétt búin að ljúka kandídatsári sínu með vinnu á barnaspítölum. Dvölin í Ameríku hafði verið ævintýri líkust og svalað miklum metnaði þeirra en það sem öllu hefur breytt og mótað þau meira en nokkur önnur reynsla á þessu langa ferðalagi er fæðing og uppvöxtur þriggja barna þeirra. Sigrún og Friðgeir eru sannarlega tákn um bjartar vonir íslenskra læknavísinda þegar þau stíga um borð í Goðafoss haustið 1944 en þau eru líka foreldrar, sannfærð um hvert mikilvægasta hlutverk þeirra er og verður í náinni framtíð.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir marga ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld, en inn í hana sogast líka nánast óteljandi atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Í bókinni segir meðal annars frá kynnum Sigrúnar og Friðgeirs af fátækt og ofbeldi í stórborgum landsins, s.s í Harlem-hverfi New York-borgar, dægurmenningu og uppgangi valdamikilla stofnana og fyrirtækja í bandarísku samfélagi, auðsöfnun og hinum síauknu áherslum á framfarir á sviði vísinda og tækni. Því líf þeirra hjóna í Ameríku var ekki bara bundið heimi læknavísinda, heldur snerist um heimilisrekstur, framboð nýrra heimilistækja og eftirspurn eftir heimilishjálp í stríði. Og saga þeirra flækir svo sannarlega þá mynd sem dregin hefur verið upp af hlutverki húsmæðra á fimmta áratugnum í Bandaríkjunum, viðhorfum til svartra vinnukvenna, samskiptum kynjanna og hlutverki feðra í barnauppeldi.

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga byggir á bréfum og dagbókum sem þau hjón héldu frá því að þau sigldu til Bandaríkjanna haustið 1940 og þar til þau sneru heim til Íslands frá New York haustið 1944. Höfundur notar einnig fjölda ljósmynda til að draga upp senur og dýrmæt augnablik í lífi fjölskyldunnar en frásögnin af atburðarrásinni um borð í Goðafossi eftir að tundurkeyti frá þýskum kafbát skellur á honum er hér einnig sögð frá nýju sjónarhorni með Sigrúnu og Friðgeir, og börn þeirra þrjú í brennidepli.

Frá 990 kr.

Gerð SíðurÚtgáfuárVerðMagn
Innbundin 228 2013 Verð 4.865 kr.
Kilja 228 2014 Verð 3.190 kr.
Rafbók - 2013 Verð 990 kr.
Vörunúmer: Á ekki við

Sækja í verslun: Frítt

Sendingargjald: Frá 590 kr.

Flokkar: / / / / / /

5 umsagnir um Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga

 1. Kristrun Hauksdottir

  „Nákvæm fræðileg vinnubrögð, ásamt úthugsaðri og látlausri framsetningu, gera þetta að einstöku verki á mörkum ævisögu og sagnfræði.“
  Viðurkenningaráð Hagþenkis

 2. Kristrun Hauksdottir


  „Sigrún er listagóður penni og þrátt fyrir að fylgja ströngum vinnureglum sagnfræðinnar tekst henni að skapa sögu sem tekur flestum skáldsögum fram hvað varðar áhugaverðar persónur og spennandi framvindu. Lokakaflinn sem lýsir þeim fimm mínútum sem það tekur Goðafoss að sökkva er skrifaður af slíkri tilfinningu og innsæi að hárin bókstaflega rísa á höfði lesanda og tárin trilla. Gjörsamlega mögnuð upplifun … Fantavel skrifuð og áhugaverð saga hjóna sem hlutu grimm örlög. Magnaðri lesning en flestar skáldsögur.“
  Friðrika Benónýsdóttir / Fréttablaðið

 3. Kristrun Hauksdottir


  Árni Matthíasson / Morgunblaðið

 4. Kristrun Hauksdottir

  „Bókin er listaverk í efnistökum og stíl … Höfundurinn fellur aldrei í þá freistni að yfirdrífa, ýkja né heldur að velta sér upp úr örlögum fólks. Sem er þó sannarlega oft gert í bókum af miklu minna tilefni … Hér er vandaður rithöfundur á ferð. En líka vandaður sagnfræðingur … Bókin ætti auðvitað að vera metsölubók ævisagna að minnsta kosti … Frábær bók. Bestu þakkir.“
  Svavar Gestsson

 5. Kristrun Hauksdottir

  „Mannleg og hlý saga af mjög grimmum örlögum. Sigrún býr yfir einhverri óskaplegri næmni, bæði sem stílisti og hvernig hún vinnur úr hlutunum … síðasti kaflinn er þannig að flestir hljóta að komast við ef þeir beinlínis gráta ekki vegna þess að henni hefur tekist að byggja upp svo sterka mynd af þessu fólki og maður lifir sig svo inn í þetta … Bóksalar völdu þetta bestu ævisögu ársins … ég er hjartanlega sammála þeim þarna … Ég er verulega hrifin.“
  Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan

Skrifa umsögn

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Eftir sama höfund