Höfundur: Sigurður A. Magnússon

Undir kalstjörnu segir átakanlega sögu drengs sem elst upp í Reykjavík á kreppuárunum upp úr 1930. Bókin var fyrsta bindið í sjálfsævisögulegu verki Sigurðar A. Magnússonar og vakti mikla athygli þegar hún kom fyrst út árið 1979.

„Þessi saga rekur atvik sem gerðust í reyndinni en getur þó ekki talist sannsöguleg,“ segir Sigurður A. Magnússon í formálsorðum bókarinnar. Það er samt einstaklega trúverðug lýsing hans á fjölskyldu og þjóðfélagi á umbrotaárunum á Íslandi á fjórða áratugnum sem gerir Undir kalstjörnu að manneskjulegri og heillandi frásögn. Höfundurinn smíðar veröld sem er nöturleg og grimm séð frá sjónarhóli barnsins og geymir þó fegurð og hlýju, ekki síst í faðmi móðurinnar. Með traustum tökum á máli og formi tekst Sigurði að lýsa tilverunni með öllum hennar annmörkum – lífinu eins og það er – og gera bernskuminningar sínar að veigamiklu skáldverki. „Sjálfslýsing og samfélagslýsing þessara bóka er einsdæmi í íslenskum bókmenntum og þótt víðar væri leitað,“ segir Jón Yngvi Jóhannsson í Íslenskri bókmenntasögu.

Undir kalstjörnu hlaut Menningarverðlaun DV árið 1980 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ári síðar. Auk þess að leggja stund á frumsaminn skáldskap er Sigurður A. Magnússon ötull þýðandi, bæði á og úr íslensku.