Hann fæddist á fyrst ári íslenska lýðveldisins og ólst upp í Norðurmýri í Reykjavík. Hann hlaut nafnið Magnús Þór og nefndi sig síðar Megas. Í sögu hans kannast margir við sjálfa sig, því hún er sannferðug úttekt á heimi íslenska barna á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Hver man ekki sokkabandskotin óþægilegu, skólahjúkkurnar skeleggu með lýsiskönnur á lofti eða klígjuna við kekkjóttri flöskumjólk, nauðungarljósaböðin og sundhallarafgreiðsludömurnar, stimamjúkar við fullorðna en önugar við ungviðið? – En í sögu litlu píslarinnar er að finna ljúfar minningar um lystireisur í Tívolí og út í Nauthólsvík, um pissubílinn og það sæla hasarblaðahungur. Þau Þórunn Jarla Valdimarsdóttir og Megas hafa bæði lagt bernskuminningar sínar, drauma og ímyndunarafl að veð í ævintýralegri og töfrandi bók. Þetta er ekki ævisaga, heldur fantasía eða rabbsódía um Reykjavík – umhverfi og atvik – í lífi lítillar píslar.

Bók þessi kom upphaflega út árið 1990.