Veistu að á Alþingi er háaloft sem stendur autt fyrir utan eina möru sem sogar til sín hamingjuna? Vissirðu að í Tjörninni er útburður sem á síðkvöldum kjagar að leiði móður sinnar í kirkjugarðinum og líkist vængbrotnum hrafnsunga? Hefurðu gist í svörtu herbergjunum á Hótel Borg? Og veistu hvað er á bak við kirkjuna í Landakoti?

Þegar Íslendingar yfirgáfu sveitirnar tóku þeir draugana með sér, og líka þörfina fyrir að koma á þá böndum með sögum. Válynd veður, náttúruhamfarir, fátækt og einangrun hafa löngum verið frjór jarðvegur fyrir hvers kyns volæði, ótímabæran dauða – og týndar sálir.

Reimleikar í Reykjavík er byggð á ítarlegum viðtölum við lifandi og í sumum tilfellum dána Íslendinga. Hér birtast í fyrsta sinn nokkrar af alræmdustu draugasögum Reykjavíkur í seinni tíð, í bland við sögulegan fróðleik um borgina.

Steinar Bragi samdi texta bókarinnar en hann og Rakel Garðarsdóttir tóku tugi  viðtala við fólk í bænum í leit að bestu, óþekktustu og hryllilegustu draugasögum miðbæjarins. Jóhann Páll Valdimarsson tók myndir fyrir bókina en teikningar í henni eru eftir Sunnu Sigurðardóttur.

Bókin kemur út bæði á íslensku og ensku.