Stol er áhrifamikil saga um dauðann, tímann og lífið; viðleitnina til að halda í minningarnar og nýta tíma sem er á þrotum. Frásögnin er hjartnæm og grípandi en um leið leikandi létt og fyndin, ekki síst lýsingin á höktandi samskiptum feðganna sem þurfa að takast á við glataðar aðstæður – og kveðjast.
Baddi er ráðvilltur ungur maður sem kemur heim til Íslands til að annast dauðvona föður sinn, Hörð. Heilaæxli hefur rænt hann svo mörgu sem áður var sjálfgefið og hlutverk feðganna hafa snúist við. Saman fara þeir akandi á gömlum jeppa út úr bænum, en ferðin er feigðarflan. Hörður er óðum að tapa dómgreind sinni, minni og máli, og Baddi ræður illa við aðstæðurnar og ábyrgðina á ósjálfbjarga föður sínum.
Björn Halldórsson hefur áður gefið út smásagnasafnið Smáglæpi sem fékk afar góðar viðtökur. Stol er fyrsta skáldsaga hans.
embla –
„Það er blátt áfram heillandi að fylgja feðgunum eftir á ferðalaginu, þar sem þeir líða hljóðlega um þjóðveginn og landið einir og yfirgefnir. Áhrifamesti hluti sögunnar er sviðsettur í þögulli kyrrð óbyggða, sem er vel við hæfi enda er máttur þagnarinnar eitt leiðarstef bókarinnar.“
Árni Davíð Magnússon / Bókmenntaborgin
embla –
„Sagan er einföld, falleg og þó nokkuð grípandi og textinn flæðir vel áfram. Það gerir söguna auðlesna og aðgengilega auk þess sem hún vekur lesandann til umhugsunar um hvaða hlutverki orðin og þagnirnar gegna í samskiptum við hans nánustu.“
Ragnheiður Birgisdóttir / Morgunblaðið