Einhvern tíma rakst ég á samanburð á enskum og spænskum farsa. Í þeim enska eru allir í örvæntingu að reyna að losna úr pínlegum aðstæðum; í þeim spænska eru allir á barmi taugaáfalls en hafa lúmskt gaman af því. Nú rann upp fyrir mér að líf okkar Ljúbu var spænskur farsi.

Eva og Matti hafa nýlega umbylt lífi sínu og flutt úr miðborginni til smábæjar utan borgarmarkanna, en sitja samt uppi með sjálf sig og hvort annað. Vandamálin vaxa og óveðurský hrannast upp. Þá kynnist Eva rússneskumælandi garðyrkjubónda, Ljúbu, sem segir henni litríka sögu sína og fjölskyldunnar.

Sögur kvennanna tveggja spegla hvor aðra og vinátta þeirra hefur mikil áhrif á líf beggja. Úr verður einstök frásögn, skrifuð af þeim hlýja mannskilningi sem einkennir verk Guðrúnar Evu – um hlutskipti kvenna, samskipti kynjanna, örlög, frumkvæði, nánd og þau sannindi sem draumar geyma.

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir Allt með kossi vekur og Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Yosoy árið 2006 og Englaryk árið 2014.

ATH. Tvær gerðir hljóðbóka eru í boði fyrir þessa vöru. Hljóðbókin er til á geisladiski (CD eða Mp3) sem afhendist í pósti eða úr verslun en einnig er hægt að fá hljóðbók sem er afhent rafrænt og hægt er að hlusta á beint í gegnum app Forlagsins eða vafra (Hljóðbók – App). Hér má lesa meira um hljóðbækur fyrir appið.

Hljóðbókin er um 9 klukkustundir að lengd. Höfundur les.