Höfundur: Fríða Ísberg

Vöxtur

manneskjan vex
ekki eins og tré
heldur tún

mér óx orðaforði
væntumþykja, neglur, hár
efi

sjálfsmeðvitund og örvænting
saman
mynduðu þær spegil

og spegillinn óx eins og
silfraður fiskur um hrygg

eins og múr
utan um heimsveldi
eða gaddavír um bithaga

Leðurjakkaveður er önnur ljóðabók Fríðu Ísberg, sem vakið hefur mikla athygli fyrir skrif sín, ljóðabókina Slitförin og smásagnasafnið Kláða. Hér yrkir hún um viðkvæmni, vörn og togstreituna milli sviðsetningar og sannleika á tímum einstaklingsdýrkunar.